Norræni bókagleypirinn

– flýtileið að bókaspjalli með börnum
um myndabækur á norrænum tungumálum!

Norræni bókagleypirinn býður upp á ókeypis náms- og stuðningsefni um myndabækur frá öllum Norðurlöndunum og á öllum norrænu tungumálunum. Frjálst er að nota efnið í bókaspjalli með börnum, hvort sem er í skólanum, á bókasöfnum eða heima hjá ykkur. Efnið fjallar um myndabækur sem hafa verið tilnefndar til Barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs.

Hvers vegna Norræni bókagleypirinn?  

Við viljum ná til fullorðinna sem lesa með börnum og langar að fá hugmyndir og aðstoð við að hvetja til lesturs. Efnið hjálpar ykkur að spjalla við börnin um myndabækur á öðrum norrænum málum. Þannig kynnist þið þeim fjársjóði sem leynist í norrænum myndabókum og stuðlið að norrænni samkennd með lestri þeirra.  

Náms- og stuðningsefnið er sett saman af norrænum hópi barnabókavarða, myndhöfunda, rithöfunda, kennara og annarra sem vilja hvetja börn til lesturs. Norræna menningargáttin í Helsinki átti frumkvæði að verkefninu og hefur umsjón með því en það er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni.

Verið velkomin í hugmyndabankann!